Prjónlympíuleikar

Pistill um hvernig prjón og íþróttir skarast á óvenjulegan hátt.
Þessi grein birtist í Fréttatímanum rétt fyrir Ólympíuleikana sumarið 2012.
Prjónlympíuleikar – hvað er nú það?
Bandaríska ólympíunefndin og netvæddir prjónarar elda saman grátt silfur þessa dagana. Skilaboðum rignir yfir Ólympíunefndina á Fésbókinni frá bálreiðum prjónurum. Segið svo að það sé einhver logmolla í kringum prjónaskap! En hvað er eiginlega í gangi?
Ravelry
Ravelry.com er samskiptasíða fyrir prjónara með yfir tvær milljónir meðlima. Prjónarar út um allan heim tengjast síðunni en lang flestir eru þó búsettir í Bandaríkjunum. Fólk skráir sig inn á síðuna og setur inn myndir og lýsingar af prjónaverkum sínum, segir hvaðan uppskriftin og garnið kemur og hvernig gekk. Hægt er að finna fullt af ókeypis uppskriftum, en einnig er þetta vettvangur fyrir prjónhönnuði sem kynna sig og selja uppskriftir í gegnum síðuna. Þetta hefur af mörgum verið kallað Fésbók prjónara. Þá myndast þar margir hópar sem eiga sameiginleg áhugamál innan prjónheimsins, umræður fara fram og hugmyndum er deilt. Þá eru ótaldir viðburðir sem kalla mætti samprjón en þá taka hópar áskorun og prjóna einhver tiltekin verkefni og birta á síðunni.
Ravelympics
Það er einmitt eitt verkefni í þessu anda sem hefur farið fyrir brjóstið á forsvarmönnum bandarísku ólympíunefndarinnar eða USOC. Áhugahópur um ólympíuleikana blésu til samprjóns eða prjónakeppni þar sem ætlunin var að úthluta tilteknum verkefnum til að prjóna á meðan á útsendingu ólympíuleikanna stendur í sumar. Allir sem til þekkja vita að prjónarar eiga margir erfitt með að sitja auðum höndum fyrir framan sjónvarpstækið. Þetta er reyndar í þriðja skiptið sem blásið er til þessa viðburðar og hefur hann gengið undir nafninu Ravelympics. Það fer ekki fram hjá neinum að orðið er samsett úr heiti síðunnar og leikanna.
Í þetta sinn ætlaði USOC ekki að láta Ravelry komast upp með þetta afhæfi og sendi bréf dags. 19. júní s.l. til umsjónarmanna þess og bentu þeim á að þeir væru að brjóta á rétti USOC sem hefðu einkaleyfi á notkun orðsins Olympics og að þetta væri augljóslega stæling á því. Þetta fannst mörgum súrt sem stóðu í þeirri trú að heiti ólympíuleikanna gæti varla verið varið einkaleyfi því nafnið væri dregið af staðnum þar sem fyrstu leikarnir fóru fram í Grikklandi fyrir yfir tvö þúsund árum. En þeim skjátlaðist og USOC eru harðir á sínu. Þeir eru ekki á fjárframlögum bandaríkjastjórnar, heldur njóta stuðnings styrktaraðila. Þeir nota því einkaleyfavarið nafnið og lógóin og selja ákveðnum aðilum afnot til að safna fé. Þess vegna voru þeir aldeilis óhressir með að prjónarar væru að taka nafnið eða hluta þess, þótt þeirra ætlun hafi á engan hátt tengst viðskiptahagsmunum af neinu tagi. Einnig gerðu þeir athugasemdir við að inni á Ravelry væri að finna uppskriftir með hringjalógói leikanna.
Umdeilt bréf
En margir sem hafa tjáð sig um þessi mál voru ekkert endilega ósammála USOC um réttinn til að verja nafnið. Það var annað sem reitti þá til reiði eða orðalagið í bréfinu til Ravelry. Þar var nefnilega sagt að þessir tilburðir prjónarana að efna til “prjónlympíuleika” setti niður hugsjónir og markmið Ólympíuleikanna. Í bréfinu var talað í hátíðlegum tón um íþróttafólkið, langþráð markmið þeirra og þrotlausa vinnu við undirbúning leikanna. Síðan var orðum vikið að Ravelympics og taldir upp nokkrar greinar innan þess eins og teppamaraþon, treflahokkí og peysuþríþraut. Þetta töldu þeir niðurlægja sannan anda leikana og vanvirða besta íþróttafólk þjóðarinnar.
Þá skilur maður betur reiðina sem blossaði upp. Viðbrögð prjónara voru að drekkja fésbókarsíðu USOC (www.facebook.com/USOlympicTeam) í athugasemdum og margar eru ansi hreint hnittnar. Sennilega hafa forsvarsmenn USOC fallið í þá vel þekktu gryfju að halda að prjónandi fólk væri ekki vel menntað, vel lesið og vel skrifandi. Annað hefur komið í ljós. Lögfróðir prjónarar voru ekki lengi að fara ofan í málin og reka ofan í bréfskrifarana lagalega þætti málsins og bent þeim á að þeir hafi farið vel út fyrir ramma laganna í bréfaskrifunum og verið dónalegir.
Beitt skilboð
Upp á yfirborðið hefur komið umræða um að bandaríska Ólympíunefnin þykir of háð þeim sem veita þeim styrki, allt frá framleiðendum morgunkorns til stórra lyfjafyrirtækja. Og að lyfjamisnotkun íþróttafólks væri frekar til þess fallin að lítillækka leikana. Fólk furðar sig á því hvernig það gat svert ímynd ólympíuleikanna að ætla að prjóna á meðan þeir horfa á sjónvarpið. Aðrir hafa stungið upp á að gera prjón að ólympíugrein, t.d. gæti sokkaprjón trekkt að styrktaraðila sem framleiða íþróttaskó.
Á sama tíma og nefndin sendi þetta umdeilda bréf eru þeir með söfnunarátak sem heitir “buy a stitch” en þar er fólk beðið um að borga 12 dollara fyrir eitt spor í fána sem bandarísku ólympíufararnir taka með sér til London sem er út af fyrir sig göfugt átak. Á ensku er orðið “stitch” notað bæði fyrir saumspor og lykkju í prjóni. Svo einhvers tvískinnungs gætir í þessu máli að mati þeirra sam hafa tjáð sig á fésbókinni.
Afsökunarbréf
Bandaríska Ólympíunefndin hefur beðist afsökunar á því að móðga milljónir prjónara með bréfi sem birtist nýverið á netsíðu þeirra. En það dugði ekki til og þeir birtu annað afsökunarbréf, en skutu sig þá í fótinn með því að tala niður til prjónara og segja að þeir hafi ekkert ætlað að móðga þennan áhugahóp um prjón og til að sýna sáttavilja mættu allir prjóna eitthvað og senda þeim til að taka með á leikana. Einmitt það sem prjónarnar vildu ekki heyra og nú gekk önnur reiðibylgja yfir þá á Fésbókinni. Beiðni þeirra um að fá gefins eitthvað prjónað endurspeglaði vanþekkingu þeirra á vinnunni sem fælist í hverju verkefni. Prjónarar prjóna bara fyrir þá sem þeim líkar við. Þetta segir allt sem segja þarf um hvaða tónn er í samskiptunum á Fésbókinni.
Gömul viðhorf
Margir bandarískir prjónarar munu sitja fyrir framan skjáinn og fylgjast með Ólympíuleikunum í sumar með blendnum huga. Það sem byrjaði sem samstarfsverkefni í anda leikanna og var ætlað til að krydda upplifunina af leikunum sjálfum breyttist í öndverðu sína vegna alls þessa sem á undan er gengið.
Það verður að segjast að í þessu máli öllu kristallast gömul og þreytt viðhorf þeirra sem halda að hannyrðir og handavinna og þar með talið prjón, sé þarflaus iðja. Þeir vita ekki að á meðal prjónara er fólk sem tilheyrir öllum stéttum þjóðfélagsins og getur svarað fyrir sig ef þörf krefur. Í þessu gamla viðhorfi felst mikil vanþekking og vanvirðing á þessari mikilvægu iðju. Vonandi er það á undanhaldi.
Meira á netinu
Hver var annars að tala um lognmollu í prjónheiminum? Þeir sem vilja skemmta sér með frekari lestri er bent á að gúgla orðið ravelympics og þá koma upp margar greinar um þessi mál. Einnig er stórskemmtilegt að lesa athugasemdir prjónara inn á Fésbókarsíðu USOC sem getið er hér fyrir ofan. Þá er bara að undirbúa sig fyrir leikana og vera með skemmtilegt verkefni á prjónunum. Ekki of flókið samt svo maður missi ekki af því þegar metin falla.
Góðar prjónastundir!
Guðrún Hannele
hannele@storkurinn.is