Prjónfesta

Hvað er prjónfesta og hvaða máli skiptir hún?
Prjónfesta (einnig kallað prjónþensla) er fjöldi lykkja mældur yfir 10 cm á breiddina á sléttu prjóni og fjöldi umferða mældar yfir 10 cm á hæðina á sléttu prjóni. Yfirleitt má ganga út frá því að prjónfesta sé mæld á slétt prjón og þannig er það á garnmiðum. En stundum er prjónfestan gefin upp í tilteknu mynsturprjóni í uppskriftum. Þá er mikilvægt að prjóna prufu í uppgefnu mynstri til að sannreyna prjónfestuna.
Það er mikilvægt að gera prjónfestuprufu áður en hafist er handa við að prjóna flík. Jafnvel þó að notað sé sama garn og uppskriftin gerir ráð fyrir þá prjónar fólk misjafnlega fast eða laust.
Ýmislegt getur haft áhrif á prjónfestuna, t.d. tegund prjóna sem notaðir eru. Prjónar eru missleipir eða stamir. Heppilegra er að nota sams konar prjóna í alla flíkina, t.d ekki nota bambusprjóna í ermarnar og álprjóna í bolinn. Það fer reyndar eftir garni sem notað er hversu áberandi munurinn getur orðið ef notaðar eru margar tegundir af prjónum í sömu flík. Lopinn felur t.d. meira en margt annað garn.
Tegund prjóns, margir prjóna tvíbandaprjón lausar eða þéttar en slétt prjón og brugðið prjón lausar en slétt prjón. Þá getur prjónfestan breyst með aldrinum, það finna þær sem taka upp þráðinn á gömlu verkefni. Loks getur verið dagamunur á prjónfestunni eftir því hversu upplagðar við erum til að prjóna.
Þær sem vilja laga prjónfestuna hjá sér – t.d. vilja venja sig á að prjóna fastar eða lausar alltaf – ættu að athuga hvernig þær halda um bandið sem prjónað er með, hvernig því er vafið um fingurna og hvernig hert er að nýprjónuðu lykkjunni. Almennt er þó mælt með því að skipta um prjónastærð til að fá þéttara eða lausara prjónles.
Hvað getur gerst ef prjónfestan stenst ekki? Þá verður flíkin annað hvort of lítil eða of stór og annað hvort of þétt prjónuð eða of laust prjónuð.
Mörgum finnst tímasóun að gera prjónfestuprufu en þá skal hafa í huga að það þarf ekki mikil frávik til að breyta stærð peysu. Í meðalgrófleika af garni með 18 lykkjur á 10cm í prjónfestu samkvæmt uppskrift eins og t.d. léttlopinn þarf ekki að muna nema 1 lykkju upp eða niður í prjónfestu til að fullorðinspeysa verði 5 cm of víð eða of þröng. Og það munar oft um minna.
Ef uppgefin prjónfesta er 22 lykkur á 10 cm fyrir 4 mm prjóna og prjónfestan reynist 23-24 lykkjur þá er ráðlagt að skipta yfir í 4,5 mm prjóna og gera aðra prufu. Ef prjónfestan reynist 20-21 lykkja þá er ráðlagt að skipta yfir í 3,5 eða 3,75 mm prjóna og gera aðra prufu.
Einnig er talað um heklfestu í uppskriftum og þá er vísað til fjölda fastalykkja á 10 cm eða stuðla á 10 cm. Það er jafn mikilvægt að gera heklfestuprufu til að ákvarða stærð á heklunál sem nota skal.
Þegar gerð er prjónfestuprufa er ágætt að fitja upp rúmlega uppgefinn lykkjufjölda í prjónfestu og hafa 3-5 lykkjur hvoru megin þegar mælt er (prjónfestan er 18 lykkjur, fitja upp 24-28 lykkjur). Prjóna slétt prjón (mynsturprjón ef uppskriftin gerir ráð fyrir því) rúmlega 10 cm. Þá er auðveldara að fá nákvæma mælingu og þá er hægt að sjá í leiðinni hvernig prjónast úr garninu.
Hvað ef umferðafjöldi er meiri eða minni en gefið er upp? Það er mikilvægara að lykkjufjöldi stemmi í prjónfestunni en umferðafjöldi. Ef lykkjufjöldinn stemmir eru líkur á því að umferðafjöldi geri það líka. En það er þó ekki algilt. Ef prjónaðar eru peysur með flóknu mynsturprjóni sem endurtekur sig á nokkurra umferða fresti þarf að gæta þess að það hafi ekki áhrif á sniðið á peysunni. Úrtökur í mitti eða við handveg þurfa að lenda á réttum stað miðað við stærð á peysunni. Þess vegna þarf að fylgjast vel með því og einblína ekki eingöngu á umferðafjölda í uppskriftinni heldur einnig sentímetrafjölda.
Guðrún Hannele tók saman fyrir ykkur sem viljið fræðast meira um undirstöðu prjóns.