Ömmur og ungbarnaprjónið

PRJÓNAPISTILL
Einn hópur hættir seint að prjóna og það eru ömmur landsins. Þó að þær endurspegli ekki lengur ímynd prjónsins eins og fram kom í síðasta pistli, þá halda þær ótrauðar áfram. En hver skyldi vera skýringin?
Þegar ég segi ömmur þá er ég að tala um breiðan hóp kvenna sem geta verið á bilinu fertugar til áttræðar, forstjórar eða heimavinnandi og allt þar á milli. Það sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru búnar að eignast ömmubarn eitt eða fleiri og vilja umvefja þau umhyggju og hlýju á margvíslegan hátt. Það vitum við sem þekkjum að ást ömmu til barnabarnanna er sterk og við höfum þörf fyrir að tjá hana með ýmsum hætti m.a. með prjóni. Þar koma handprjónaðar peysur, húfur, sokkar eða jafnvel heilu heimfararsettin á nýfæddu krílin til sögunnar. Umhyggjan sem fer í þann prjónaskap er ekki hægt að kaupa í búð.
Þess eru mörg dæmi að kona eigi von á sínu fyrsta barnabarni og það hellist yfir hana löngun til að prjóna eitthvað fallegt á barnið. En hún hefur ekki snert prjóna í tuttugu ár eða lengur, þrátt fyrir prjónabylgjuna, og þá er stundum erfitt að byrja. Sem betur fer búum við svo vel á Íslandi að hér er að finna nokkrar garnverslanir sem bjóða upp á þekkingu og góða þjónustu og það eru um að gera að notfæra sér það. Það er hægt að finna góðar uppskriftir fyrir byrjendur eða þá sem eru að taka upp þráðinn eftir langan tíma. Verið einnig óhræddar við að leita ykkur aðstoðar hjá þeim sem sem hafa meiri reynslu því flestar sem prjóna hafa ánægju af því að miðla þekkingunni áfram.
Í dag er hægt að fá mikil úrval af ungbarnagarni sem er einstaklega mjúkt viðkomu. Oftast nær er það úr ull því hér norðufrá eru sumrin svo stutt. Vinsælast er að nota ull sem hefur verið soðin eða meðhöndluð þannig að hún þófnar ekki við vélþvott á 30° C. Það virðist vera krafan í dag enda þarf að þvo ungbarnafatnað oftar en annað. En það er einnig hægt að finna aðra mjúka ull eins og alpakaull, en hana verður að handþvo. Svo verður hver og ein að meta hversu fínt garnið má vera, því fínna garn er seinlegra í prjóni en grófara. En þessar upplýsingar fáið þið í garnbúðunum.
Litaval er svo einn kapítuli þegar prjónað er á nýfæddu börnin. Hér áður var þetta einfalt; hvítt, beinhvítt, ljósgult eða ljósgrænt ef ekki var vitað um kynið. Bleikt eða ljósblátt ef barnið var fætt. En þetta er liðin tíð. Litaúrval í garni hefur bæði breyst og aukist mjög mikið. Tískan hefur meiri áhrif á litavalið, sérstaklega ef ungu mæðurnar fá að vera með í ráðum og nú er mun algengara að kyn barnsins liggi fyrir áður en barnið fæðist. Segja má að langvinsælasti liturinn sé eftir sem áður beinhvítur, þá hafa gráir og brúnir tónar komið sterkt inn hin síðari ár á bæði kynin. Og grænir og fjólutónar sömuleiðis. Bleikt og blátt er enn notað en núna líka í muskulegri litum. Flestir velja milda liti fyrir þau yngstu og svo verða litirnir sterkari og skærari þegar þau eldast. Reyndar er dökkbrúnn nokkuð vinsæll á yngri börnin, en svart heyrir til undantekninga.
En ömmur og mömmur eru akki alltaf sammála um hvaða lit á að velja. Amman sem ætlar að prjóna vill ekki tískulitina og mamman er ekki á bleik/bláu línunni. Þá mætast þær sem betur fer oftast á miðri leið og velja jafnvel hlutlausan lit. Sterkar hefðir og nýir tímar takast á þegar litaval er annars vegar og allir virðast hafa skoðun á því. En hvað er það sem mótar þessar skoðanir okkar er erfitt að svara.
Þá er ótalin ein hefð sem hefur skapast og það er að prjóna eða hekla ungbarnateppi, jafnvel fleiri en eitt fyrir sama barnið. Fjallað verður nánar um það í öðrum pistli. Hér fylgir hins vegar uppskrift að yndislegum ungbarnahosum ef einhver vill takast á við verkefni sem er ekki of tímafrekt.
Guðrún Hannele
hannele@storkurinn.is