Kennarar Storksins

Helga Thoroddsen er textílkennari frá KHÍ og með mastersgráðu frá Colorado State University i textílfræðum. Hún var ein af stofnendum Þingborgarhópsins og er sérfræðingur í vinnslu ullar. Hún hefur alltaf prjónað með annari vinnu og núna undanfarið sinnt prjónhönnun meira en áður. Afraksturinn má m.a. sjá í bókinni PRJÓNATAL 2011 sem kom út haustið 2010. Helga er með vefsíðuna www.prjon.is og þar getið þið skoðað brot af því sem hún hefur hannað og prjónað. Helga kennir peysuhönnun og prjóntækni.

Sólveig Sigurvinsdóttir er menntaður textílkennari frá KHÍ, og hefur unnið við textílkennslu í grunnskóla og kennt á heklnámskeiðum hjá Storkinum frá 2004. Áhugamál hennar eru eru þráðavinna af ýmsum toga s.s. prjón, hekl og útsaumur. Sólveig er gjörsamlega óseðjandi þegar að þessum málum kemur og finnst alltaf gaman að læra og prjófa nýjar aðferðir og tækni er varða þráðavinnu.

Guðrún Hannele Henttinen er textílkennari frá textíldeild KHÍ og Háskólanum í Helsinki og menntunarfræðingur frá HÍ. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á alls kyns hannyrðum, jafnt prjóni, hekli og útsaumi og svo bættist bútasaumur við. Áhuginn er bæði tengdur handverkinu sjálfu og sögunni og fræðilega hluta hannyrðanna.  Það er hennar köllun að miðla þessari þekkingu svo fleiri geti notið þeirrar ánægju sem helst í að skapa á fjölbreyttan hátt með ólíkum aðferðum. Guðrún Hannele hefur tekið þátt í sýningum Handverks og hönnunar sem meðlimur Fitjakots. Einnig skrifaði hún tæknikaflann í Prjónatali 2011. Guðrún Hannele rekur hannyrðaverslunina Storkinn og hannar og þýðir prjónauppskriftir.

Katrín Jóhannesdóttir er menntaður textílkennari frá Handavinnukennaraháskólanum í Skals/Viborg. Hún kennir útsaum og vélsaum við Hússtjórnarskólann í Reykjavík og á námskeiðum hjá Heimilisiðnaðarskólanum og víðar. Hennar sérfag er útsaumur í anda Skals, en hæfileikar hennar og þekking er afar fjölþætt. Þegar hún er ekki að sauma út eða prjóna gengur hún á fjöll innanlands og utan.

UPP